Flugfundur
Flugfundur

Flugrekstur íslenskra fyrirtækja skilaði 10,1 milljarði króna í beina skatta og launatengd gjöld árið 2010. Áætlað er að 15,4 milljarðar króna til viðbótar renni í ríkissjóð gegnum aðfangakeðju greinarinnar og 9,5 milljarðar að auki frá neyslu starfsmanna í flugrekstrinum sjálfum og aðfangakeðju hans.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu breska rannsóknarfyrirtækisins Oxford Economics á efnahagslegu mikilvægi flugsamgangna á Íslandi. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar fyrir stundu á opnum fundi á Hilton Nordica hótelinu.

Í skýrslunni kemur fram að flugrekstur skilar 102,2 milljörðum króna (6,6%) til VLF á Íslandi. Miðað er við árið 2010 en heildartalan skiptist þannig niður að 43,4 milljarðar króna koma beint úr flugrekstrinum sjálfum (flugfélög, flugvellir og þjónusta á jörðu niðri), 36,4 milljarða króna koma úr aðfangakeðju flugrekstrarins og 22,4 milljarða króna koma til vegna neyslu starfsmanna í flugrekstri og aðfangakeðju hans.

Að auki koma 95,7 milljarðar króna sem óbeinn ábati af „afleiddum áhrifum“ á ferðaþjónustu, sem hækkar heildarframlagið í 197,9 milljarða króna eða 12,9% af VLF.

Hagfræðingur IATA, sem stóð fyrir gerð skýrslunnar, Julie Perovic, kynnti niðurstöður hennar á fundinum sem Flugmálastjórn Íslands, Isavia, SAF og Icelandair Group stóðu fyrir. Ísland er 56. landið í heiminum sem Oxford Economics rannsakar með sama hætti og í sameiginlegri tilkynningu þessara aðilar kemur fram að niðurstöður skýrslunnar gefa ótvírætt til kynna að þjóðhagslegt mikilvægi flugstarfsemi er hvergi í heiminum meira en hér á landi.

Rúmlega 12% af heildarvinnuafli landsins árið 2010

Þá kemur fram að flugrekstur hefur veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og stendur undir 6,6% af landsframleiðslu og 9.200 störfum, þ.e. 5,5% af vinnuafli landsins. Þá telja skýrsluhöfundar að framlag greinarinnar ferðaþjónustunnar hækki þessar tölur í 12,3% af landsframleiðslu og 20.600 störf, eða 12,3% af heildarvinnuafli landsins.

Í fyrrnefndi tilkynningu kemur fram að í skýrslu Oxford Economics um Noreg kemur fram að framlag greinarinnar að meðtalinni ferðaþjónustunni er 2,6% af landsframleiðslu, í Svíþjóð er framlagið 3,9% og í Danmörku 2,3% af landsframleiðslu, en hér á landi 12,9% eins og áður var nefnt. Þá skapar greinin með sama hætti 2,1% af heildarvinnuafli í Noregi, 4,1% í Svíþjóð og 1,8% í Danmörku, en 12,3% hér á landi.

Þá kemur einnig fram í skýrslunni að árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns í flugþjónustu á Íslandi er 16 milljónir króna. Það er u.þ.b. 1,7 sinnum meira en meðaltalið á Íslandi, sem er 9,2 milljónir króna.