*

sunnudagur, 24. október 2021
Erlent 12. júní 2020 10:47

Flugrisar höfða mál gegn breska ríkinu

British Airways, EasyJet og Ryanair hafa höfðað mál gegn breska ríkinu vegna tveggja vikna sóttkví ferðamanna.

Ritstjórn
epa

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, tilkynnti í síðustu viku um að allir flugfarþegar sem koma til landsins þurfa að fara í 14 daga sóttkví. British Airways, EasyJet og Ryanair hafa nú höfðað mál til Hæstaréttar Bretlands gegn breska ríkinu vegna ákvörðunarinnar. Financial Times segir frá. 

Í tilkynningu flugfélaganna þriggja í morgun segir að þau hafi hafið lögsókn gegn „gallaðri sóttkví“ ríkisstjórnarinnar sem þeir telja að muni hafa hörmuleg áhrif á breska ferðamannaiðnaðinn og hagkerfið ásamt því að eyðileggja þúsundir starfa. 

Flugfélögin vilja að ríkisstjórnin taki aftur upp fyrri ráðstafanir sem innleiddar voru þann 10. mars síðastliðinn þar sem ferðatakmarkanir áttu einungis við flugfarþega sem komu frá svæðum þar sem smithætta er mikil. Það væri „hagnýtasta og skilvirkasta lausnin“, segir í tilkynningunni.

Fjöldi flugfarþega í heiminum var um 95% lægri í apríl síðastliðnum miðað við sama tíma í fyrra. Fyrr í vikunni varaði Alþjóðasamband flugfélaga (IATA) við því að flugiðnaðurinn væri að horfa fram á 84,3 milljarða dollara tap á árinu vegna heimsfaraldursins.  

Stikkorð: Ryanair IATA British Airways EasyJet Priti Patel