*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 17. janúar 2018 17:50

Flugrútan hækkar um allt að fjórðung

Hópbílar og Kynnisferðir buðu best í aðstöðu við inngang Keflavíkurflugvallar en gjaldskylda verður sett á önnur stæði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þegar Hópbílar munu hefja akstur á sætaferðum fyrir farþega til og frá Keflavíkurflugvelli þann 1. mars næstkomandi verða farmiðarnir 12,5 til nálega 25% dýrari en hjá keppinautunum Gray Line og Kynnisferðum að því er Túristi greinir frá.

Það voru Kynnisferðir og Hópbílar sem buðu hæst í útboð á aðstöðu fyrir sætaferðir frá flugstöð Leifs Eiríkssonar sem þau fá frá og með byrjun marsmánaðar. Fargjaldið með Flugrútu Kynnisferða verður 2.700 krónur en farmiðar með Airport Direct Hópbíla kosta 2.990 krónur.

Greiða 275 milljónir í fastar greiðslur

Gray Line sem rekið hefur Airport Express, munu þá þurfa að færa sig yfir á rútustæði sem er handan við skammtímabílastæðið framan við flugstöðina, en fargjaldið já Airport Express fyrirtækisins hefur hingað til verið 2.400 krónur. Verðmunurinn er því frá 12,5% til 24,6%.

Tilboð fyrirtækisins um greiðslur til Isavia var nokkru lægra en samkeppnisaðilarnir tveir buðu ríkisfyrirtækinu, það er fjórðung af veltu flugrútunnar meðan Kynnisferðir buðu 41,2% og Hópbílar um þriðjung af sinni veltu. Jafnframt þurfa Kynnisferðir að greiða fasta lágmarksgreiðslu upp á 158 milljónir en Hópbílar þurfa að greiða 127 milljónir á ári. 

Gjaldskyldan tekur gildi sama dag

Eins og áður segir hyggst Gray Line áfram bjóða upp á ferðir með flugrútu sinni, en sama dag munu taka gildi ný bílastæðagjöld á almenna rútustæðinu sem fyrirtækið hyggst nú nýta sér, líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Verður greiðslan 7.900 krónur fyrir minni rútur en 19.900 fyrir þær sem eru með 20 sæti eða fleiri, en Gray Line hefur kært ákvörðun Isavia til Samkeppniseftirlitsins eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá.

Túristi bendir á að Swedavia, opinbera fyrirtækið sem rekur helstu flugvelli Svíþjóðar rukkar ekki hópferðabíla fyrir aðstöðu við flugvöllinn, og við flugvöll Osló jafngildir gjaldið um 1.000 íslenskum krónum, en þar fá öll fyrirtæki 15 mínútur beint fyrir framan inngang flugstöðvarinnar.

Á þessum flugvöllum er hins vegar mun dýrara að leggja einkabílum á langtímabílastæðum en gildir við Keflavíkurflugvöll. Viðskiptablaðið hefur jafnframt fjallað um fyrirtækið BaseParking sem býður upp á skutlþjónustu á flugvöllinn og langtímastæði við Ásbrú, en félagið segir Isavia hafa reynt að leggja stein í götu fyrirtækisins með því að bjóða upp á sömu þjónustu.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is