Samkvæmt upplýsingum um ferðaáætlanir flugfélaga sem fljúga um Keflavíkurflugvöll á komandi mun heildarframboð á flugsætum næsta sumar dragast saman um 10% miðað við sama tíma í fyrra. Framboðið fer þá úr 7,9 milljón flugsætum síðastliðið sumar niður í 7,1 milljón sæta í ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Isavia sendi frá sér í dag, en í tilkynningunni er tekið fram að flugáætlun geti tekið breytingum hjá flugfélögunum.

Tölurnar gilda fyrir tímabilið apríl til október 2019 en sumartímabilið skv. skilgreiningu Alþjóðasamtaka flugfélaga IATA nær frá lok mars ár hvert til loka októbermánaðar.

Mestur samdráttur verður í flugi til og frá Bandaríkjunum þar sem flugsætum fækkar um 29% milli ára og næst mest til og frá Bretlandi eða um 22%. Í tilkynningunni er helsta skýringin á minna framboði bandarískra flugsæta fækkun áfangastaða í Bandaríkjunum og færri flugsæti til og frá Bretlandi geti skýrst af minna sætaframboði hjá bæði easyJet og British Airways næsta sumar. Aukning verður hins vegar í framboði til og frá Þýskalandi þar sem flugsætum fjölgar um 10%. Framboð eykst einnig um 16% frá Noregi og Sviss og sömuleiðis er um 18% aukning til og frá Kanada.