Nýtt 3.000 fermetra flugsafn verður reist á Selfossi á næstu misserum ef fyrirætlanir Íslenska flugsögufélagsins, Sveitarfélagsins Árborgar og Flugklúbbs Selfoss ná fram að ganga. Um síðustu helgi var undirrituð viljayfirlýsing um þetta en greint var frá henni á vefnum sunnlenska. is. Flugsögufélagið er í dag með aðstöðu í þúsund fermetra flugskýli við Reykjavíkurflugvöll en það hús verður hugsanlega rifið strax á næsta ári.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni fær flugsafnið lóð við Selfossflugvöll, þar sem fyrirhugað er að reisa safnið. Í safni Flugsögufélagsins er meðal annars TF-ÖGN, sem var hönnuð og smíðuð hérlendis snemma á fjórða áratug síðustu aldar. Eyþór Arnalds og Eggert Valur Guðmundsson skrifuðu undir viljayfirlýsinguna fyrir hönd Árborgar ásamt Sigurjón Valsson, formanni Flugsögufélagsins, og Helga Sigurðssyni, formanni Flugklúbbs Selfoss.