Samtök atvinnulífsins segja að föst mánaðalaun flugmanna og flugstjóra, að vaktaálagi meðtöldu, hjá Icelandair hafi að meðaltali verið 915 þúsund krónur á mánuði í maí í fyrra. Að viðbættum launaliðum sem greiddir eru við hverja launaútborgun, s.s. akstursgreiðslur, álagsgreiðslur og hlunnindi, voru regluleg laun þeirra 1.045.000 kr krónur á mánuði. Að viðbættum yfirvinnugreiðslum voru heildarlaunin 1.125.000 krónur á mánuði. Í þessum tölum eru hvorki dagpeningar, sem greiðast reglulega, né eingreiðslur ýmis konar.

Samtök atvinnulífsins birtu þessar upplýsingar á vef sínum nú síðdegis í ljósi þess að upp úr slitnaði í samningaviðræðum Samtaka atvinnulífsins við flugstjóra í morgun. Segja Samtök atvinnulífsins að laun flugmanna og flugfreyja hafi hækkað langt umfram launavísitölu Hagstofunnar á árunum 2006-2013.

Laun flugstjóra eru mun hærri laun en almennra flugmanna. Föst mánaðarlaun flugstjóra voru að meðaltali 1.189.000 krónur á mánuði, regluleg laun 1.411.000 kr. og heildarlaun 1.528.000. Föst mánaðarlaun flugmanna voru 770.000, regluleg laun 852.000 og heildarlaun 912.000.

Í maí 2013 voru föst mánaðarlaun flugfreyja, að vaktaálagi meðtöldu, að meðaltali 314.000 kr. á mánuði. Að viðbættu svonefndu handbókargjaldi, eftirlitsálagi, akstursgreiðslum, sölulaunum og hlunnindum voru regluleg laun þeirra 457.000 kr. á mánuði. Heildarlaunin voru 547.000 þegar yfirvinnugreiðslum er bætt við.