Flugstöð Leifs Eiríkssonar er í 4. sæti í flokki evrópskra flughafna þegar skoðuð er heildaránægja farþega. Þetta er niðurstaða á öðrum ársfjórðungi þessa árs í svokallaðri ASQ könnun sem framkvæmd er á vegum Airports Council International (ACI), en allar helstu flughafnir heims taka þátt í þessari könnun. Þetta kemur fram í frétt FLE.

?Við erum mjög ánægð með þessar niðurstöður. Þetta segir okkur að við séum á réttri leið með það sem við erum að stefna að, vera í fremstu röð flughafna, bjóða einstaka upplifun og eftirsóknarverða þjónustu sem stenst samanburð við bestu flughafnir í heimi. Flugstöðin hefur stækkað mjög á undanförnum misserum. Verslunar- og þjónusturýmið er nú orðið tvöfalt stærra en áður og á annan tug fyrirtækja bjóða þar vörur og þjónustu. Þessar niðurstöður eru þær fyrstu sem við fáum í hendurnar eftir að framkvæmdum lauk, en þær staðfesta það sem við höfum fundið fyrir. Farþegar eru mjög ánægðir með þær breytingar sem gerðar hafa verið á flugstöðinni. Þeir eru að mæta fyrr og gefa sér góðan tíma til að versla og njóta veitinga fyrir flugtak?, segir Hrönn Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunarsviðs FLE, í tilkynningu.

Könnun þessi er framkvæmd í um 90 flughöfnum um allan heim. Farþegar eru fengnir til að svara spurningum á vettvangi um hina ýmsu þjónustuþætti í byggingunni. Alls eru þetta 33 þjónustuþættir sem farþegar eru spurðir um m.a. aðgengi, leiðbeiningar, þjónustu, aðstöðu, öryggi og umhverfi. Gagna í þessari könnun er aflað allt árið, en niðurstöður birtar ársfjórðungslega.

Árið 2004 varð Flugstöð Leifs Eiríkssonar í þriðja sæti í flokki flughafna undir 5 milljónum farþega og hlaut verðlaun fyrir frammistöðuna það árið.