Ferðamenn völdu Hong Kong bestu flugstöð í heimi árið 2004. Í öðru sæti lenti Seoul Incheon og í því þriðja flugstöðin í Singapore. Flugstöð Leifs Eiríkssonar lenti í þriðja sæti í flokki flugstöðva undir 5 milljónum, þar sem flugstöðin í Halifax lenti í fyrsta sæti og Malta í öðru sæti.

Þetta er niðurstaða svokallaðrar AETRA könnunar sem framkvæmd er á vegum Airports Council International (ACI) and the International Air Transport Association (IATA). Samtökin veita árlega verðlaun þeim flugvöllum sem standa sig best í þessari könnun.

"Við erum mjög ánægð með þessar niðurstöður. Þetta segir okkur að við séum á réttri leið með það sem við erum að stefna að, en í framtíðarsýn Flugstöðvarinnar segir að við viljum vera í fremstu röð flughafna, bjóða einstaka upplifun og eftirsóknarverða þjónustu sem stenst samanburð við bestu flugstöðvar í heimi. Hlutverk flugstöðvarinnar er að tryggja framúrskarandi þjónustu á Keflavíkurflugvelli. Þátttaka í þessari könnun er hluti af gæðastarfi okkar. Við notum niðurstöður hennar til að fylgjast með ánægju farþega og bæta það sem betur má fara til að upplifun þeirra verði sem best", segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður markaðssviðs í frétt á heimasíðu FLE.