Alex ehf. hefur gert samning við Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. um rekstur bifreiðageymsluþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., segir í tilkynningu.

Alex ehf. býður viðskiptavinum sínum að geyma bíla sína innandyra á meðan á ferðalagi stendur sem og þrif og almennt viðhald á bifreiðum fyrir farþega. Fyrirtækið þjónustar einnig vildarklúbb Icelandair.

Í tilkynningunni segir að geymsla bifreiða sé mikilvæg þjónusta við flugfarþega er fara um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og því mikilvægt að flugfarþegar hafi greiðan og öruggan aðgang að móttöku og afhendingu bifreiða í flugstöðinni. Því efndi Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. til forvals um rekstur slíkrar þjónustu.

Alex ehf. uppfyllti skilyrði forvals og var því gengið til samninga um aðstöðu í flugstöðinni. Samningurinn er einn þáttur í að bæta þjónustu við flugfarþega auk þess að auka hlut einkaaðila í flugstöðinni en sú stefna var mótuð þegar ráðist var í forval. Þess er vænst að breytingarnar muni treysta flughöfnina í sessi sem vinsælan viðkomustað sem stenst samanburð við bestu flughafnir í heimi.