*

sunnudagur, 5. júlí 2020
Innlent 28. maí 2018 10:40

Flugstöð boðin til sölu

Flugstöð og vélargeymsla við aflagðan flugvöll á Vestfjörðum hefur verið boðin til sölu á vef Ríkiskaupa.

Ritstjórn
Flugstöðin stendur ásamt vélageymslu í Sauðlauksdal við Patreksfjörð í Vesturbyggð á Vestfjörðum.
Aðsend mynd

Ríkiskaup bjóða til sölu fyrrum flugstöð og vélageymslu við aflagðan flugvöll í Sauðlauksdal við Patreksfjörð. Á fasteignavef Morgunblaðsins má sjá að fasteignamat eignarinnar er um 9,3 milljónir króna, en brunabótamatið er hátt í 83 milljónir. Húsið var byggt árið 1983 og er 265,3 fermetrar.

Í tilkynningu á vef Ríkiskaupa segir að fasteignin sé á fallegum stað í Sauðlauksdal við Patreksfjörð, neðan við Örlygshafnarveg í Vesturbyggð. Sauðlauksdalur er þekktur í Íslandssögunni af því að þar var Björn Halldórsson prestur á 18. öld, en hann var frumkvöðull í ræktun kartaflna á Íslandi. Til að hefta sandfok lét hann bændur byggja varnargarð sem bændur nefndu af því tilefni Ranglát.

Er fasteignin boðin til sölu í núverandi ástandi en gerður verður lóðasamningur til 25 ára á nýrri afmarkaðri 9.959 fermetra lóð sem stofnuð verður út úr landi flugvallarins.

Lóðin afmarkast af flughlaðinu við stöðina, en flugvöllurinn aflagði sjálfur verður ekki innan lóðarinnar. Gísli Þór Gíslason verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum segir að það standi til að afmarka tvær lóðir við enda flugbrautarinnar.