Áformað er að Leifsstöð verði á næstu árum stækkuð um sem nemur samtals 8.700 fermetrum. Ráðgert er að 5.000 fermetra viðbygging verði kláruð í mars á næsta ári, að því er haft er eftir Guðna Sigurðssyni, upplýsingafulltrúa Isavia, á mbl.is. Sú viðbygging verður til suðurs og verður notuð fyrir farþega á leið til og frá löndum utan Schengen.

Þá verður önnur 3.000 fermetra viðbygging byggð til vesturs, en ekki er búið að ákveða hvenær hafist verður handa við byggingu hennar. Guðni segir að framkvæmdir muni þó að líkindum hefjast á næstu vikum.

Þessu til viðbótar stendur til að komusalur til austurs verði stækkaður um 700 fermetra.

Undanfarnar vikur hafa myndast langar biðraðir í flugstöðinni á mestu álagstímum, einkum á fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum. Fyrir vikið hefur Isavia hvatt flugfarþega að vera tímanlega á ferðinni.