„Flugfélögin hafa ráðið flugmenn á undanförnum misserum. Stærri félögin ráða gjarnan flugmenn sem hafa aflað sér reynslu hjá minni félögum. Þá verður líka hreyfing hjá þeim þannig að í heildina er heldur meiri hreyfing nú en verið hefur,“ segir Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), í samtali við Morgunblaðið .

Þar segir hann atvinnuástandið meðal flugmanna ágætt. Segist hann jafnframt reikna með að 750 greiði til FÍA í sumar og hefur félagið aldrei verið fjölmennara.

Þá segir Sigríður Ása Harðardóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, að félagið sé alltaf að stækka og reiknar hún með því að fjöldi félaga verði með hæsta móti í sumar. Áætlar hún að hátt i 1.000 flugfreyjur og flugþjónar muni borga gjöld til félagsins í sumar.