Joby Aviation, sem framleiðir rafknúin loftför, hefur náð samkomulagi við „opinn tékka“ (e. blank cheque) félagið Reinvent Technology Partners um að koma fyrirtækinu á markað með öfugum samruna. Samningurinn verðmetur Joby á 6,6 milljarða dollara eftir nýja fjármögnun. Financial Times segir frá.

Loftförin, sem falla undir flokkinn eVTOL (electric vertical takeoff and landing), rúma fimm mans og geta flogið yfir 240 km á einni hleðslu. Fyrirtækið segir loftförin vera þögul þrátt fyrir að geta ferðast á allt að 320 km á klukkustund, samkvæmt færslu Joby á LinkedIn . Stefnt er að því að hefja fjúgandi leigubílaþjónustu með loftförunum á næstu árum. Meira en 700 manns starfa hjá Joby sem var stofnað árið 2009.

Fyrirhugað er að hefja framleiðslu á ferðatækjunum síðar í ár í 10,3 ekra verksmiðju sem var hönnuð með Toyota. Japanski bílaframleiðandinn fjárfesti 394 milljónum dala í Jopy á síðasta ári.

Samningurinn veitir Joby 1,6 milljarða dollara af nýju fjármagni sem verður nýtt í þróunarstarf. Að baki Reinvent standa Reid Hoffman, meðstofnandi LinkedIn, og Mark Pincus, stofnandi tölvuleikjaframleiðandans Zynga.

Joby er ekki fyrsta „flugtaxa“ fyrirtækið sem fer á markað en keppinautur þeirra Asher sameinaðist „opin tékka“ félagi, einnig kölluð SPAC, fyrr í mánuðinum í samningi sem gaf honum 3,8 milljarða dollara verðmat. Þyrluþjónustan Blade hefur einnig sameinast SPAC, meðal annars til að hjálpa fyrirtækinu að víkka út starfsemi sína í fljúgandi leigubíla. Þýska sprotafyrirtækið Lilium sækist einnig eftir að komast á markað í gegnum SPAC samning.

Joby, Archer og Lilium segjast öll vonast til að hefja farþegaflug á árunum 2023-2025. Samkvæmt skýrslu Deloitte og samtakanna AIA gætu árlegar tekjur af þessum markaði (kallaður „Air mobility market“) í Bandaríkjunum numið 115 milljörðum dala frá og með árinu 2035 og skapað 280 þúsund störf í millitíðinni.

Fyrir neðan má sjá skilaboð frá JoeBen Bevirt, stofnanda og forstjóra Joby, vegna fyrirhugaða samrunans við Reinvent.