Eitt af því sem haldið hefur aftur af endurkomu Boeing 737 MAX flugvélanna – sem hafa verið kyrrsettar í rúmt ár eftir tvö mannskæð flugslys – eru flugtölvurnar, sem hafa reiknigetu á við 30 ára gamla Super Nintendo leikjatölvu.

MAX vélarnar eru búnar tveimur FCC-730 flugtölvum. Hvor um sig er búin tveimur einkjarna 16-bita örgjörvum, sem keyra samhliða til að tryggja að bilun í öðrum hvorum valdi ekki slysi, þar sem tölvurnar hafa vald yfir helstu stjórntækjum flugvélarinnar. Sambærileg vél Airbus, A320neo, er með svipað öflugar tölvur, en í henni eru þær sjö í stað tveggja.

Verkefnin lítið breyst þar til í MAX
Í umfjöllun The Verge um málið er þó bent á að góð ástæða er fyrir því að notaðar eru gamlar tölvur. Þær eru eðli máls samkvæmt einfaldari, og á þær komin mikil reynsla, og því ólíklegra að einhverskonar hug- eða vélbúnaðargalli sem gæti orðið dýrkeyptur leynist í þeim. Fyrirrennari MAX, Boeing 737 Next Generation, notaði sömu tölvur, og er öruggasta mjóþota heims.

Allt frá tímum Super Nintendo og FCC-730 hafa enda verkefni flugtölva lítið breyst, og því engin ástæða til að uppfæra þær, sér í lagi í ljósi ofangreindra öryggissjónarmiða. Eins og flestum er þó eflaust kunnugt í dag voru kröfurnar sem lagðar voru á flugtölvur 737 MAX hinsvegar aðrar og meiri.

Einn helsti sölupunktur vélarinnar var hvað hún væri svipuð fyrirrennara sínum – enda sem minnstu breytt öðru en nýjum skilvirkari, stærri og þyngri vélum – og því þyrftu flugmenn aðeins klukkutímaþjálfun í spjaldtölvu til að geta flogið henni. Vélarnar breyttu hinsvegar flugeiginleikum vélarinnar, en í stað þess að ráðast í kostnaðarsamar og tímafrekar breytingar á vélbúnaðinum, var ákveðið að leiðrétta það með hugbúnaðarstýringu.

Eftir flugslysin tvö varð svo ljóst að í þeim hugbúnaði var galli sem undir tilteknum kringumstæðum lét vélarnar stefna beint á jörðu niður, rétta sig af, og stefna svo niður á ný í sífellu. Flugmenn höfðu aðeins um fjórar sekúndur til að gera sér grein fyrir vandanum og bregðast við, ellegar misstu þeir stjórn á vélinni sem að lokum hrapaði til jarðar.

Óvirkja stjórntæki, ræsa sig illa og frjósa á sjálfstillingu
Boeing hefur allar götur síðan unnið að lausn á vandanum sem byggir á uppfærslu hugbúnaðarins. Strax síðasta sumar skilaði flugvélaframleiðandinn inn lausn til flugmálayfirvalda Bandaríkjanna, sem hóf prufanir á henni. Það var þá sem í ljós komu ýmsir gallar við aldraðar tölvurnar.

Viss villa sem upp gat komið gat óvirkjað heilu stjórntækin og steypt vélinni í átt til jarðar. Þær áttu það auk þess til að frjósa á sjálfstillingu, sem gæti komið sér afar illa á röngu augnabliki, og loks áttu þær það til að ræsast ekki rétt.

Endurkomu 737 MAX í háloftin hefur verið frestað trekk í trekk frá kyrrsetningunni. Boeing segist í dag stefna á að vélin geti tekist á loft á ný nú í sumar, með umbótum sem fela aðeins í sér hugbúnaðarbreytingar.