*

laugardagur, 25. september 2021
Erlent 14. september 2021 14:42

Flugumferð komin á sama stað í lok 2023

Boeing telur að flugumferð verði búinn að rétta úr kútnum vegna kórónuveirufaraldursins í lok árs 2023 eða byrjun 2024.

Ritstjórn
Boeing vél í litum British Airways
EPA

Flugvélaframleiðandinn Boeing spáir því að það taki tvö og hálft ár í viðbót fyrir fluggeirann að komast á sama stað og fyrir faraldurinn. „Iðnaðurinn mun ná aftur 2019 flugumferðartölum í lok árs 2023 eða fyrri hluta 2024,“ er haft eftir Darren Hulst, varaforseta markaðsmála hjá Boeing, í frétt BBC.

Hulst segir að innanlandsflug verði í fararbroddi afturbata markaðarins. Samkvæmt spám Boeing verða alþjóðleg langflug síðust til að ná sér aftur, að hluta til vegna takmarkana stjórnvalda.

Flugvélaframleiðandinn segir nauðsynlegt að stjórnvöld víða um heim liðki reglur á landamærum til að losa úr böndunum innbyrgðu eftirspurnina sem sé til staðar á markaðnum.

Á síðasta ári féll farþegafjöldi fluggeirans um 60% um heiminn og nam 1,8 milljörðum í heildina. Iðnaðurinn tapaði 126 milljörðum dala í heild sinni, samkvæmt Alþjóðasamtökum flugfélaga (IATA).