*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 28. maí 2016 10:00

Flugumferðarstjórar hafna 25% hækkun

Formaður Félags flugumferðarstjóra segir þá vilja leiðréttingu sem þeir telja sig eiga inni eftir hækkanir hjá flugmönnum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Flugumferðarstjórar hafa hafnað tilboði sem svarar til 25 prósenta hækkunar launa, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Að því gefnu að heildarlaun flugumferðarstjóra, með grunnlaunum, föstu vaktaálagi og yfirvinnu meðtalinni, nemi að jafnaði um milljón krónum á mánuði, hafa þeir því hafnað launahækkun sem svarar til um 250 þúsund króna á mánuði.

Í samtali við RÚV segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags flugumferðarstjóra, þá gera kröfu um að auk Salek-rammans fái þeir leiðréttingu sem þeir telji sig eiga inni. Þar miða þeir við laun flugstjóra. Þeir hafi verið 10-15% hærri en flugumferðarstjórar eftir samningana sem flugumferðarstjórar gerðu 2011, en nú er munurinn 43%. Þetta vilja flugumferðarstjórar fá leiðrétt.

Í dag eru byrjunarlaun flugumferðarstjóra 418 þúsund krónur á mánuði - og eru yfirvinna og vaktaálag ekki inni í því. Launin hækka hins vegar hratt með meiri reynslu. Til dæmis er flugumferðarstjóri með 660 þúsund krónur á mánuði eftir fimmtán ára starf, en með vaktaálagi eru launin um 900 þúsund krónur. Meðaltekjur þeirra eru rétt undir þeirri upphæð - og er þá átt við heildarlaun.