Breski flugvallarrekandinn BAA hafnar kröfum frá helstu viðskiptavinum sínum um að fyrirtækinu verði skipt upp vegna markaðsráðandi stöðu á flugvallamarkaði Bretlands, segir frétt Financial Times.

BAA rekur þrjá stærstu flugvelli Bretlands og eru British Airways og Ryanair meðal þeirra viðskiptavina sem kallað hafa eftir breytingum. Talsmenn BAA segja að skiljanlegt sé að flugfélögin vilji auka áhrif sín á flugvöllunum, en þegar til lengri tíma sé litið séu hagsmunum neytenda best borgið hjá BAA.

Samkeppniseftirlit hefur haft stöðu á flugvallamarkaði Bretlands til skoðunar, en BAA segir að ef eignarhaldi fyrirtækisins verði skipt upp, geri það út af við fjármögnun fyrirtækisins.