Starfsmenn Isavia á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli hófu verkfallsaðgerðir klukkan fjögur í nótt, og lögðu niður störf á báðum flugvöllunum. Vinnustöðvun stendur yfir til klukkan níu.

Engin vopnaleit fer fram á flugöryggissvæðinu í Keflavík og fær almenningur því hvorki að fara inn á svæðið né af því. Allt flug liggur niðri meðan á aðgerðunum stendur.

Á vef RÚV kemur fram að sjö vélar á leið frá Bandaríkjunum til Íslands áttu að lenda á sjöunda tímanum en lenda þess í stað rétt upp úr klukkan 9. Ljóst er að sú töf hefur keðjuverkandi áhrif á flug til Evrópu.