Á sama tíma og sjálfkeyrandi bílar færast nær því að verða algeng sjón hyggst Boeing hefja prófanir á flugvélum án flugmanna á næsta ári. Hvort að flugfarþegar muni taka vel í hugmyndina verður tíminn að leiða í ljós en samkvæmt könnun sem bandaríska fjármálafyrirtækið UBS gerði gæti orðið erfitt að sannfæra fólk um þennan ferðamáta.

Af þeim 8.000 sem tóku þátt í könnun UBS sögðust einungis 17% aðspurðra að þeir myndu ganga um borð í slíka vél. Þetta kemur fram í frétt BBC . Samkvæmt könnuninni sögðust einnig 54% aðspurðra að þeim þætti það ekki líklegt að þessi ferðamáti yrði valinn.

Þrátt fyrir að flugfarþegar taki ekki vel í hugmyndina sýnir rannsókn UBS að sjálfstýrðar vélar væru öruggari ferðamáti þar sem 70-80% af öllum flugslysum er hægt að rekja til mannlegra mistaka. 15-20% af þessum slysum er svo hægt að rekja til þreytu flugmanna.