Flugvél frá flugfélaginu JetBlue var á leið frá Kaliforníu til Texas í Bandaríkjunum í gær þegar farþegarými flugvélarinnar fylltist af reyk vegna bilunar í hreyfli.

Vélin er af gerðinni Airbus A320 en hún var nýfarin í loftið þegar atvikið átti sér stað. Sneri vélin við til Long Beach í Kaliforníu þar sem farþegar yfirgáfu vélina út um neyðarútganga.

142 farþegar voru um borð í vélinni og þurftu fjórir farþegar á læknisaðstoð að halda. Farþegarnir héldu þó ró sinni í gegnum þessa miklu raun eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.