Icelandair hefur endanlega gengið frá kaupum á sextán 737 MAX flugvélum frá Boeing. Samningurinn felur einnig í sér að Icelandair hefur kauprétt á átta vélum til viðbótar. Icelandair og Boeing undirrituðu viljayfirlýsingu um kaup á vélunum þann 6. desember síðastliðinn.

Endanlegir samningar eru nú frágengnir um kaup þess fyrrnefnda á sextán 737 MAX 8 og 737 MAX 9 flugvélum ásamt kauprétti á átta 737 MAX flugvélum til viðbótar. Um breytingu á fjölda staðfestra pantana er að ræða frá viljayfirlýsingunni. Staðfestum pöntunum fjölgar um fjórar og verða sextán alls og kaupréttir verða átta í stað tólf áður. Vélarnar verða afhentar á árunum 2018-2021. Heildarverðmæti flugvélanna sextán samkvæmt listaverði Boeing er um 1,6 milljarðar bandaríkjadala, en kaupverðið er trúnaðarmál.

Boeing 737 MAX vélarnar eru ný og endurbætt langdrægari útgáfa af núverandi Boeing 737 vélum. Eldsneytissparnaður samanborið við Boeing 757 vélarnar sem eru notaðar í flota félagsins nemur meira en 20% á sæti.