Nokkrar stórar pantanir í nýjar flugvélar hafa verið tilkynntar á alþjóðlegu flugsýningunni í París í gær og í fyrradag.

Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus tilkynnti í gærmorgun um tvær stórar pantanir. Annars vegar pöntun Air France-KLM í 25 Airbus A350 vélar og kauprétt á 25 vélum til viðbótar og hins vegar pöntun Singapore Airlines í 30 A350 vélar og kauprétt á 20 vélum til viðbótar. Air France-KLM tilkynnti um leið að A350 vélin yrði burðarvél í endurnýjun á flota félagsins í framtíðinni.

Singapore Airlines hefur val um hvort félagið vill taka A350-900 eða lengstu gerðina af vélinni, A350-1000, í notkun. Félagið hafði áður pantað 20 A350 vélar þannig að staðfestar pantanir eru nú 50 vélar og 70 með fyrrnefndum kauprétti.

Þá tilkynnti Airbus einnig  um undirritun viljayfirlýsingar við SriLankan Airlines um kaup á sex Airbus A330 vélar og fjórum A350 vélar. Félagið er nú þegar með sjö A330 vélar í notkun. Fyrstu A330 verða afhentar í desember 2015 en félagið fær sína fyrstu A350 vél árið 2019 samkvæmt áætlun.

Pantanir í A350 vélina hafa fengið nokkra athygli fjölmiðla sem er að mörgu leyti skiljanlegt þar sem vélin er sú nýjasta í fluggeiranum. Henni var fyrst reynsluflogið sl. föstudag og aftur í dag en fyrsta vélin verður afhent til almennrar notkunar næsta sumar ef allt gengur eftir.

Boeing tekur við sér

Áhugamenn um flugheiminn hafa þó beðið spenntir eftir fréttum af stóra keppinaut Airbus, bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing og þá helst af pöntunum í 787 Dreamliner vélina. Sem kunnugt er var fyrsta Dreamliner vélin afhent til almennrar notkunar í fyrravor en í janúar á þessu ári voru allar Dreamliner vélar kyrrsettar eftir að vandamál kom upp í rafmagnskerfi vélarinnar. Hún hefur þó tekið á loft á ný en málið þykir vandræðalegt fyrir Boeing.

Beoing menn gátu þó fagnað þegar félagið tilkynnti í fyrradag að framleiðsla yrði hafin á 787-10, sem er lengsta útgáfan af Dreamliner vélinni. Enn sem komið er hefur Dreamliner vélin eingöngu verið framleidd í einni stærð, 787-8. Gert er ráð fyrri að 787-9 vélinni verði reynsluflogið síðar á þessu ári og afhent til notkunar snemma á næsta ári. Boeing hefur hins vegar farið varlega í að gefa út yfirlýsingar um þróun á lengstu útgáfunni, 787-10, fyrr en nú. Gert er ráð fyrir að vélinni verði reynsluflogið árið 2017 og afhent til notkunar árið 2018.

Samhliða því tilkynnti Boeing að félagið hefði fengið 102 staðfestar pantanir í 787-10 vélina, þar af pantanir í 30 vélar frá Singapore Airlines, 30 vélar frá Air Lease Corporation og 20 vélar frá United Airlines.

Það er ljóst að það verður hörð samkeppni á milli Airbus og Beoing um sölu á A350 vélinni annars vegar og Dreamliner vélinni hins vegar.

Boeing hafði þá frekari ástæðu til að fagna í gær þegar félagið tilkynnti að írska lággjaldaflugfélagið Ryanair hefði staðfest pöntun á 175 Boenig 737-800NG vélum. Listaverð pöntunarinnar er um 15,6 milljarðar dala. Þetta er jafnframt stærsta pöntun frá evrópsku flugfélagi í sögu Boeing.

Í gær var jafnframt tilkynnt um pöntun fjárfestingafélagsins CIT Group í 30 Boeing 737 Max 8 vélar sem og pöntun Omar Air í fimm 737-900ER vélar.

Flugsýningin í París mun standa yfir fram yfir helgi og það má vænta þess að næsta daga verði tilkynnt um frekari pantanir á flugvélum.

Tölvugerð  mynd af Airbus A350 vél í litum Air France (Mynd: Airbus)
Tölvugerð mynd af Airbus A350 vél í litum Air France (Mynd: Airbus)

Tölvugerð  mynd af Airbus A350 vél í litum Singapore Airlines (Mynd: Airbus)
Tölvugerð mynd af Airbus A350 vél í litum Singapore Airlines (Mynd: Airbus)

Tölvugerð mynd af Airbus A350 vél í litum SriLankan Airlines  (Mynd: Airbus)
Tölvugerð mynd af Airbus A350 vél í litum SriLankan Airlines (Mynd: Airbus)

Tölvugerð mynd af Airbus A330 vél í litum SriLankan Airlines  (Mynd: Airbus)
Tölvugerð mynd af Airbus A330 vél í litum SriLankan Airlines (Mynd: Airbus)

Tölvugerð mynd af Boeing 737-900ER vél í litum Oman Air (Mynd: Boeing)
Tölvugerð mynd af Boeing 737-900ER vél í litum Oman Air (Mynd: Boeing)

Tölvugerð mynd af Boeing 787-10X, lengsta útgáfan af 787 Dreamliner vélinni.
Tölvugerð mynd af Boeing 787-10X, lengsta útgáfan af 787 Dreamliner vélinni.

Tölvugerð mynd af Boeing 787-10X, lengsta útgáfan af 787 Dreamliner vélinni.
Tölvugerð mynd af Boeing 787-10X, lengsta útgáfan af 787 Dreamliner vélinni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)