*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 19. júní 2014 14:13

Flugvelli lokað á Siglufirði

Talsmaður Isavia segir að ákvörðun um lokunina hafi ekki verið tekin án samráðs.

Ritstjórn
Gísli Freyr Valdórsson

Til stendur að loka flugvellinum á Siglufirði á næstu misserum. Talið er að lokunin geti haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í bænum en miklum fjármunum hefur verið varið í slíka uppbyggingu siðustu árin. Frá þessu er sagt á mbl.is og Morgunblaðinu í dag. 

Róbert Guðfinnsson fjárfestir, sem rekur bæði hótel og veitingastaði á Siglufirði, segir í samtali við Morgunblaðið að lokunin hafi komið flatt upp á ferðaþjónustuaðila bæjarins. Hann segir að ekki hafi verið rætt við þá sem eiga hagsmuna að gæta áður en ákvörðun um lokunina var tekin. Hann segist jafnframt telja að flugvöllurinn muni gegna mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu Siglufjarðar í framtíðinni.

Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki séu til peningar nema til að halda úti áætlunar- og sjúkraflugi í landinu og þetta sé alfarið í höndum innanríkisráðuneytisins. Hann segir þó alrangt að ákvörðunin um lokunina hafi verið tekin einhliða og án alls samráðs. „Í maí var þetta auglýst sem fyrirhuguð aðgerð og þar með hófst athugasemdarferli sem enn er í vinnslu,“ segir Friðþór. 

Stikkorð: Siglufjörður