Flugverð hefur hækkað um rúm 15% milli mánaða samkvæmt nýrri verðkönnun Dohop fyrir janúarmánuð 2015. Við gerð könnunarinnar er gert ráð fyrir einum farþega sem flýgur báðar leiðir með eina ferðatösku og handfarangur sem er minna en fimm kíló að þyngd.

„Auðsjánalegt er að mikil lækkun á olíuverði er ekki farin að skila sér í lægra verði á flugi, en heilt yfir hækkar flugverð um 15% miðað við sömu könnun í síðasta mánuði. Mest er samkeppnin á flugi til London, en þar þarf að passa upp á að taka töskugjöldin með í reikninginn því hlutfallslega getur munað miklu og ekki auðséð hvaða flugfélag er ódýrast hverju sinni,“ segir í tilkynningu frá Dohop um niðurstöðurnar.

Mestar hækkanir eru á flugi til Helsinski, Munchen, Edinborgar og Amsterdam. Eina lækkunin milli tímabila er á flugi til Kaupmannahafnar, sem nú kostar 38 þúsund krónur að meðaltali báðar leiðir á vef Dohop.

© Aðsend mynd (AÐSEND)