Félagsmenn Flugvirkjafélags Íslands hafa samþykkt nýjan kjarasamning Icelandair fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 31. desember 2025 en atkvæðagreiðslu lauk í dag.

Samningurinn er í samræmi við þau markmið sem samningsaðilar lögðu upp með sem í senn styrkir samkeppnishæfni Icelandair Group og stendur vörð um starfskjör og gott starfsumhverfi starfsfólks, segir í tilkynningu Icelandair.

Flugfélagið samdi við Félag íslenskra atvinnuflugmanna síðastliðinn föstudag en félagsmenn FÍA eiga þó eftir að kjósa um samninginn. Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að Flugfreyjusamband Íslands hafnaði lokatilboði Icelandair í kjaraviðræðum félaganna .

Mikil áhersla hefur verið lögð á að ljúka gerð kjarasamninga fyrir áætlaðan hluthafafund Icelandair á föstudaginn næstkomandi. Fyrir fundinum liggur tillaga um heimild til að samþykkja hækkun hlutafjár en margir fjárfestar hafa gert það að skilyrði fyrir þátttöku sinni að framtíðarhorfur félagsins, þá meðal annars með tilliti til kjarasamninga, sér skýrar.