Icelandair ehf. og Flugvirkjafélag Íslands hafa undirritað nýjan kjarasamning á milli félaganna fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 31. desember 2025. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Samningurinn er sagður í samræmi við þau markmið sem samningsaðilar lögðu upp með sem í senn styrkir samkeppnishæfni félagsins og stendur vörð um starfskjör og gott starfsumhverfi. FVFÍ mun nú leggja samninginn fyrir félagsmenn sína til atkvæðagreiðslu.

„Kórónaveirufaraldurinn og afleiðingar hans hafa haft gríðarleg áhrif á starfsemi Icelandair. Mikil óvissa er um hvenær ferðatakmörkunum verði aflétt og eftirspurn eftir flugi og ferðalögum tekur við sér á ný. Félagið hefur þurft að grípa til erfiðra en nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við óvissunni. Á sama tíma er unnið að því að styrkja samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma," segir í tilkynningunni.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er ánægjulegt og mikilvægt að hafa undirritað langtímasamning við eitt af lykilstéttarfélögum okkar. Viðræðurnar voru lausnamiðaðar allt frá upphafi enda hafa aðstæður í umhverfi flugfélaga aldrei verið meira krefjandi en nú. Við stóðum frammi fyrir ýmsum áskorunum sem við unnum að í sameiningu að leiða til lykta. Þetta er mikilvægt skref í að styrkja stöðu félagsins og samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði svo við verðum í stakk búin til að sækja fram af krafti þegar óvissunni lýkur og til framtíðar.“

Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands:

„Ég tel að samninganefnd Flugvirkjafélags Íslands hafi mætt þeim þörfum og markmiðum sem Icelandair telur að þurfi að uppfylla í því ástandi sem ríkir. Undirritun á samningi er lausn fyrir báða aðila í þeirri stöðu. Við lögðum áherslu á að kjarasamningsbundin gildi flugvirkja yrðu varðveitt þannig að sátt væri um stöðu mála.“