Það gæti kostað 3 milljarða króna að gera Þórshafnarflugvöll að alþjóðarflugvelli og byggja upp flugskýli og alla aðstöðu fyrir þyrluflugið á þeim stað. Þetta er einn þeirra kosta sem skoðaðir eru vegna rannsóknar á Drekasvæðinu.

Í skýrslu iðnaðarráðherra sem kynnt var í gær kemur fram að til þess að gera Þórshafnarflugvöll að alþjóðarflugvelli þarf að lengja núverandi braut og auka burðargetu hennar. Stækka þarf öryggissvæði flugbrautar, setja upp eldsneytisafgreiðslu, farangursleitartæki, vopnaleitartæki, vararafstöð og annan búnað og girðingar vegna landamæravörslu.

Einnig þarf að stækka flugstöðvarbyggingu, setja upp nýjan blindaðflugsbúnað og ljósabúnað og bæta slökkvi- og björgunarbúnað. Byggja þarf tækjageymslu og bæta við tækjum til snjóhreinsunar, afísingar, bremsumælinga o.fl.

Miðað við lágmarks aðgerðir, eina flugbraut og að flugvöllurinn sé gerður fyrir millilandaflugvélar sem ekki þurfa langa flugbraut er áætlaður stofnkostnaður um 3 milljarðar. Þá er ekki talinn aukinn rekstrarkostnaður. Kostur við þessa lausn er stuttur flugtími þyrlanna frá borstað og stuttur ferðatími farþega, þar sem farþegar geta gengið beint um borð í flugvél sem flytur þá til erlendrar heimahafnar.