„Okkar skoðun er sú að stór hluti af hagvexti landsins á eftir að koma héðan næstu árin,“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, um uppbyggingu á Ásbrú. Hann vísar þar bæði í áhrif verkefna á varnarsvæðinu sjálfu og annars staðar í nágrenni flugvallarins, svo sem í Helguvík.

Kjartan segir margvísleg fyrirtæki sækjast eftir því að hafa starfsemi á varnarsvæðinu. Í mörgum tilfellum sé það nálægðin við flugvöllinn sem heilli, til dæmis í tilfelli gagnavera. „Þau [gagnaverin] eru stanslaust að flytja til landsins bæði starfsmenn á sínum vegum, þekkingu, þjónustuaðila og náttúrulega sína viðskiptavini. Þá skiptir máli hversu auðveldlega þú kemst á staðinn. Þetta hefur leitt til þess að við sjáum þetta gerast á fleiri stöðum í heiminum við vel tengda flugvelli, að svona fyrirtæki hafa verið að koma sér fyrir,“ segir Kjartan.

„Fólk í tæknigeiranum ferðast fjórum sinnum oftar heldur en meðalstarfsmaður í venjulegum fyrirtækjum,“ útskýrir hann. „Við sjáum þessa þróun víðar, við sjáum þetta við Schiphol og marga fleiri staði – þar sem þekkingarfyrirtækin eru í raun og veru það sem vex hvað hraðast við flugvellina.“

Það sé ekki bara miðlun á ferskvöru sem þurfi að vera staðsett nálægt flugvöllum, heldur jafnvel ráðgjafarfyrirtæki, bankar og þekkingarfyrirtæki. „Þetta eru fyrirtækin sem eru að sækja hvað harðast í þessa tengipunkta og byggja upp sína aðstöðu þar. Það sama mun gerast hér.“

Ítarlega er fjallað um atvinnumál á Suðurnesjum í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .