Undirbúningur er hafinn að stofnun sérstaks flutningasviðs innan vébanda SVÞ. Skipafélög og landflutningafélög innan samtakanna hafa ákveðið að taka höndum saman um myndun sérstaks hagsmunahóps innan samtakanna. Ráðinn verður starfsmaður til að annast þessi mál. Hann mun m.a. annast þau mál sem Samtök íslenskra kaupskiptaútgerða (SÍK) og Landvari, hagsmunasamtök landflutningafyrirtækja, hafa látið vinna fyrir sig.

Í fréttabréfi SVÞ kemur fram að talið er að töluvert hagræði verði af sameiningu SÍK og Landvara því hagsmunir þeirra eru í meginatriðum þeir sömu og aukin styrking hljótist svo af almennri hagsmunagæslu SVÞ fyrir þjónustufyrirtæki í landinu. Meðal málaflokka sem sameinar flutningafyrirtækin eru skráningarmál, lög og reglugerðir um flutningastarfsemi, fræðslumál og umhverfismál.

Meðal aðildarfyrirtækja í SÍK eru Eimskip, Samskip og Nesskip. Mun fleiri fyrirtæki eru innan vébanda Landvara, en þau fyrirtæki reka samtals um 500 flutningabíla. Öðrum fyrirtækjum sem sinna flutningaþjónustu að einhverju eða öllu leyti verður boðin þátttaka að samstarfinu.

Gerður verður sérstakur þjónustusamningur við SVÞ um rekstur flutningasviðsins og fjármögnun þess rekstrar.