Gylfi Sigfússon á langan feril að baki hjá Eimskip og hefur verið forstjóri félagsins frá maí 2008. Hann hóf feril sinn í flutningageiranum sem framkvæmdastjóri hjá Tollvörugeymslunni hf. áður en hann hélt til Bandaríkjanna árið 1996. Þar var Gylfi meðal annars yfir rekstri Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada þar til hann sneri aftur heim til Íslands árið 2008 og tók við starfi forstjóra. Alls á hann því 26 ára feril að baki í flutningum þar sem hann hefur kynnst öllum hliðum greinarinnar.

Risasamruni í flutningageiranum Hverjar eru þær áskoranir sem ykkar félag og jafnvel flutningageirinn í heild stendur frammi fyrir? Hvar liggja helstu tækifærin?

„Flutningageirinn á heimsvísu er að fara í gegnum eina verstu „krísu“ í sögu flutninga. Skipafélög eru að fara í gjaldþrot og stór félög eru að sameinast. Tvö stærstu skipafélög í Kína, Cosco og China Shipping, voru að sameinast. Maersk, stærsta skipafélag heims, er að taka yfir Hamburg Süd, en þau ráða nánast yfir öllum flutningum til og frá Suður-Ameríku og verða samtals með um 17% markaðshlutdeild í heiminum. Öll þrjú japönsku skipafélögin eru að sameinast og ég gæti nefnt fleira. Síðan eru félögin að reyna að sameinast um að draga úr framboði með því að senda skip í niðurrif og fækka í flotanum. Um er að ræða mesta offramboð í sögu flutningaflotans, þannig að skip sem áður voru tekin úr umferð 30 ára gömul eru nú að fara í niðurrif eftir 15 til 20 ára notkun. Félögin eru líka að sameinast um að það séu ekki allir að sigla sömu leiðina heldur notast við stærri skip og skipta á milli sín plássi á hverju skipi. Skilningur er á svona hagræðingu sem nú er nauðsynleg í greininni og mun að endingu skila sér í auknu hagræði til neytenda sem leiðir til lægra vöruverðs og kemur í veg fyrir gjaldþrot greinarinnar.

Sameiginleg úrelding skipa, sameiningar fyrirtækja á alþjóðamarkaði, sameining á flutningaleiðum o.s.frv. er því það sem er að gerast allt í kringum okkur. Í þessu liggja líka tækifæri okkar, því við erum að skoða svipað með Nor Lines og Royal Arctic Line og þótt við séum eyland í orðsins fyllstu merkingu þá erum við líka hluti af þessu stóra hagkerfi, heimi flutninga, og erum að í samkeppni á einum stórum markaði. Skilgreining á okkar litla Íslandsmarkaði er því alltof þröng því okkar útflutningur er ekki lengur aðeins að fara til Evrópu og flutningakerfi Eimskips nær ekki á leiðaranda. Við þurfum alltaf að tengjast stóru félögunum inn á Asíu, Afríku, Suður-Ameríku og vesturströnd Bandaríkjanna til að senda afurðir okkar alla leið og því þarf að skilgreina alla hluti upp á nýtt. Sem dæmi á þetta einnig við um aðrar greinar, til dæmis er 365 ekki einungis í samkeppni við RÚV heldur allan heiminn, Netflix og fleira. Tækifærin okkar liggja úti í hinum stóra heimi á sama tíma og sameiningar eru í gangi í nánasta umhverfi okkar. Við erum því einnig að fjárfesta í flutningsmiðlunarfyrirtækjum því þar er líka samþjöppun og mikilvægt að stækka til að lifa af harðari samkeppni á alþjóðamarkaði.“

Efnahagsbatinn á Íslandi hefur verið mikill í ár. Helst ykkar velgengni ekki mikið í takt við velgengni samfélagsins?

„Velgengni Eimskips hér á landi er svo sannarlega háð almennri velgengni samfélagsins. Ég tel vera forsendur til þess að hagvöxturinn geti haldið áfram nú eftir nokkur mögur ár hér á landi í kjölfar bankahrunsins. Efnahagsbatinn og aukin velgengni almennings og fyrirtækja leiðir til aukinnar eftirspurnar og þar með aukinna flutninga. Félagið nýtur einnig þess vaxtar sem orðið hefur í komu erlendra ferðamanna til landsins, bæði með beinum hætti í tengslum við rekstur Herjólfs, Sæferða í Stykkishólmi og með þjónustu við þann vaxandi fjölda skemmtiferðaskipa sem hingað koma. Aukinn flutningur á bílaleigubílum til landsins, flutningar tengdir uppbyggingu á hótelum, vaxandi eftirspurn eftir íbúðum til útleigu til ferðamanna, aukin þörf fyrir erlent vinnuafl og vaxandi innflutningur á matvælum og öðrum nauðsynjavörum skilar sér einnig í auknum flutningum hjá okkur. Ný félög í samstæðu Eimskips hafa einnig jákvæð áhrif á vöxtinn. Við skulum þó hafa það í huga að í öllum hagkerfum skiptast á skin og skúrir og þau eru sveiflum háð. Því er mikilvægt að taka núverandi vexti ekki sem sjálfgefnum hlut, heldur halda áfram stöðugri þróun á siglingakerfi félagsins og að hagræða og bæta reksturinn eins og hægt er á hverjum tíma.“

Nánar er rætt við Gylfa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .