Búið er að semja drög að frumvarpi til nýrra laga um landflutninga, sem leysa eiga af hólmi ríflega aldarfjórðungs gömul lög,  en m.a. var talið þörf á að skerpa gildissvið þeirra, taka þyrfti af allan vafa á því hvort lögin væru ófrávíkjanleg, hvort lögin gangi framar umferðarlögum og kveða skýrar á um ábyrgðarreglur, tilkynningu tjóna og úrræði flytjanda þegar honum er ókleift að afhenda vöru.

Sönnunarbyrðin hvíli á flytjanda

Ein helsta breytingin í frumvarpinu lýtur að ábyrgðarreglum. Höfundar þess, starfshópur sem skipaður var fulltrúa vöruflytjenda, fulltrúa kaupenda þjónustunnar og fulltrúa samgönguráðuneytisins, telja gildandi reglur alltof strangar, sérstaklega þar sem lagt var til að lögin væru ófrávíkjanleg. Vill hópurinn að ábyrgðarregla frumvarpsins verði svo kölluð sakarlíkindaregla. Í henni felst að sönnunarbyrðin hvílir á flytjanda, sem þýðir að hann ber ábyrgð á farmtjóni nema hann geti sannað að rekja megi tjónið til atvika sem hvorki hann, né menn sem hann ber ábyrgð á, eiga sök á.

Í frumvarpinu er að finna breytingar sem varða fjárhæð bóta og er lagt til að mið eigi þær við verðmæti vörunnar eins og það kemur fram á vörureikningi að viðbættum flutningsgjöldum, en annað tjón fáist ekki bætt. Þau nýmæli eru í frumvarpinu að kveðið er á um ákvörðun bóta vegna tjóns sem rekja má til tafa og er lagt til að slíkum tilvikum bætist einungis beint tjón en ekki óbeint tjón, afleitt tjón eða missir hagnaðar.

Hægt er að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin næstu fjórar vikur.