Samskip hafa hleypt af stokkunum nýjum skóla sem ber heitið Flutningaskóli Samskipa.

Skólinn er sérhæfður fyrir þá sem starfa í vöruhúsum, á gámavelli eða sem bílstjórar og ætlaður fyrir starfsmenn sem hafa stutta formlega skólagöngu að baki.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samskipum.

Þar kemur fram að aðalmarkmið skólans er að styrkja faglega hæfni starfsmanna, auka sjálfstraust þeirra og möguleika til starfsþróunar. Um tvíþætt nám er að ræða, bæði fagnám og starfsnám í vöruflutningum og er skólinn starfræktur í samstarfi við Mími símenntun.

Kennt er samkvæmt námsskrá Samskipa sem byggð er á viðurkenndri námsskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem heitir Vöruflutningaskólinn. Námsskráin er viðurkennd af menntamálaráðuneytinu til allt að 23 eininga í framhaldsskóla.

Námið tekur tvær annir, samtals 339 kennslustundir. Kennslan fer fram í kennslustofu Samskipa og á athafnasvæði félagsins við Kjalarvog.

Auglýst var eftir umsóknum í vor og barst mikill fjöldi umsókna. 14 starfsmenn voru valdir í fyrsta hópinn og hófst námið formlega í 2. september.