Hjáveitugöngin í stæði Kárahnjúkastíflu flytja 10-15% minna vatn en gert var ráð fyrir, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum athugunar á ástæðum þess að vatnsborð Jöklu hækkaði jafnmikið ofan varnarstíflunnar og raun bar vitni um í ágúst síðastliðnum. Hönnuðir mannvirkjanna eru að fara betur yfir málið að ósk Landsvirkjunar og skila greinargerð innan tíðar.

Varnarstíflan var hækkuð um 17 metra vegna vatnavaxta í ágústbyrjun en það reyndist vera mun meira en þörf var á þegar upp var staðið. Stíflan gegndi hlutverki sínu fullkomlega. Aldrei var hætta á að í stífluna kæmi skarð eða að hún gæfi eftir á nokkurn hátt þegar vatnavextirnir voru sem mestir.

Varnarstíflan er bráðabirgðamannvirki sem ætlað er að verja vinnusvæðið neðan við, þar sem unnið er að sjálfri Kárahnjúkastíflu. Hjáveitugöngin eru líka bráðabirgðamannvirki og gegna því hlutverki að veita Jöklu fram hjá stíflustæðinu á framkvæmdatímanum. Neðri hjáveitugöngunum verður lokað áður en Hálslón myndast en efri hjáveitugöngunum verður síðar breytt í botnrásargöng, varanlegan hluta af stíflumannvirkjunum.

Líkur benda til að það sé aðallega í efri hjáveitugöngunum sem minna vatn rann í ágúst en reiknað hafði verið með. Ástæðuna má að nokkru leyti rekja til breytinga í göngunum á framkvæmdatímanum sem drógu úr flutningsgetu ganganna án þess að slíkt hafi verið metið í reiknilíkani þar að lútandi. Nefna má sem dæmi að útrás ganganna (neðra opið út í Hafrahvammagljúfur) er þrengri en upphaflega stóð til vegna nauðsynlegra bergstyrkinga. Þrenging er svo í miðjum göngum þar sem botnrásarbúnaður á að koma síðar. Þeirri útfærslu var breytt nokkuð á framkvæmdatímanum.

Hækka þurfti varnarstífluna um 5-7 metra til að auka þrýsting í hjáveitugöngunum sem nam 10-15% minni flutningsgetu ganganna. Á sama tíma var svo spáð gríðarlegum hlýindum og því var ákveðið að auka öryggi þessara mannvirkja enn frekar, umfram það sem áður hafði verið áformað. Stíflan var því hækkuð um alls 17 metra. Sú ráðstöfun dugði og miklu meira en það, þrátt fyrir mesta hlýindaskeið á Íslandi í meira en hálfa öld.