Flutningsgjald á raforku til stórnotenda á Íslandi er rúmar 5 evrur á megavattstund, sem er undir meðaltali í Evrópu, en það er rúmlega 7 evrur á megavattsttund. Hæst eru flutningsgjöldin á Kýpur eða rúmar 16 evrur.

Langt undir meðaltali

Ef skoðað er hlutfall kerfisþjónustu, sem er sú þjónusta sem innt er af hendi til að tryggja gæði og öryggi í rekstri flutninga- og dreifikerfis, af flutningsgjaldinu er Ísland langt undir meðaltali með tæplega 5% en meðaltalið í samanburðarhópnum er rúmlega 30%.

Þetta kemur fram í nýjustu tölum Evrópusamtaka flutningsfyrirtækja, ENTSOE-E, en að mati Samorku er þetta ásættanleg staða, sérstaklega í ljósi strjálbýlis landsins og hve línuleiðir eru krefjandi. Jafnframt þegar horft er til þess að eftirspurn er meira en framboð af raforku hérlendis.