Búið er að samþykkja á Alþingi að fella úr gildi lög um flutningsjöfnunarsjóð á sementi og tekur sú ákvörðun giöldi um leið og lögin hafa verið birt opinberlega. Þetta hefur lengi verið baráttumál húsbyggjenda á höfuðborgarsvæðinu um langt árabil sem vilja njóta nálægðarinnar við helstu söluaðila á sementi. Það mun hins vegar geta haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir húsbyggjendur á landsbyggði sem eru fjarri suðvestur horni landsins.

Í athugasemdum um afnám laga um jöfnun flutningskostnaðar á sementi segir að samkvæmt upplýsingum flutningsjöfnunarsjóðs sements fór hlutfallslega stærstur hluti tekna sjóðsins miðað við innheimt gjöld sjóðsins í að jafna kostnað vegna flutning sements til Norðurlands eystra og Austurlands. Stærstur hluti tekna sjóðsins kom hins vegar af innheimtu flutningsjöfnunarsjóðsgjalda af sementi sem flutt var til Reykjavíkur og á Reykjanes.

Gæti þýtt verðbreytingar

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins getur meðalverð á ósekkjuðu sementi legið nærri 7.000 krónum á tonnið. Afnám flutningsjöfnunarsjóðsins mun að mati framkvæmdastjóra Aalborg Portland Íslandi leiða til lækkunar á sementsverði til húsbyggjenda á suðvesturhorni landsins um 7--800 krónur tonnið. Tekið skal fram að verð á ósekkjuðu sementi getur verið mjög breytilegt eftir því hvort um veruleg magninnkaup er að ræða eða ekki. Fyrir húsbyggjanda á Raufarhöfn, á norðaustur horni landsins, gæti þetta hins vegar þýtt að verðið fari í 13--14.000 krónur tonnið ef reiknað er með fullum flutningskostnaði og enn meira ef verið er að tala um sekkjað sement.

Hjá Sementsverksmiðjunni mun þrátt fyrir þetta ekki vera á döfinni að breyta sementsverðinu til hækkunar úti á landi. Verksmiðjan er reyndar með birgðatanka í Reykjavík, á Akranesi, Akureyri og á Reyðarfirði. Þaðan er sementi dreift til kaupenda á viðkomandi svæðum.

Til að fyrirbyggja hækkun á sementsverði til staða sem fjærst liggja frá höfuðborgarsvæðinu, þá hafa menn gert sér vonir um að sementsfyrirtækin tvö, Sementsverksmiðjan hf. og Aalborg Portland Ísland ehf. reisi birgðatanka víða um land. Þannig hefur Sementsverksmiðjan t.d. komið sér upp aðstöðu með sementstönkum á Reyðarfirði sem raunar tengjast þeim miklu virkjunarframkvæmdum sem standa yfir við Kárahnjúka. Kunnugir telja hins vegar með öllu óraunhæft að ætla að fyrirtækin komi sér upp tönkum í fámennum byggðarlögum þar sem byggingarumsvif eru lítil. Því muni flutningskostnaður til afskekktustu staðanna óhjákvæmilega aukast verulega.

Tvö fyrirtæki hafa að mestu séð landsmönnum fyrir sementi undanfarin ár, en það eru Sementsverksmiðjan á Akranesi sem nú er ekki lengur í eigu ríkisins og Aalborg Portland Ísland hf. sem selur sement frá danska fyrirtækinu Aalborg Portland.

Framleiðslumet á Akranesi

Sementsverksmiðjan á Akranesi sem nú er í eigu Íslensks sements ehf. (BM-Vallá og fleiri) sló framleiðslumet mánudaginn 3. maí síðastliðinn í framleiðslu á sementsgjalli í Sementsverksmiðjunni. Framleidd voru 366 tonn af gjalli yfir sólarhringinn, en það magn þarf til framleiðslu á um 430 tonnum af Portlandsementi. Eldra framleiðslumet, sem sett var fyrir um 4 árum síðan, var 360 tonn.

Að undanskyldum árunum 1998 og 2001 hefur sementssala verksmiðjunnar í janúar-apríl aldrei verið meiri frá því starfsemin hófst 1958 heldur en núna eða rösklega 29.000 tonn. Ekki liggur fyrir hversu stórt hlutfall hefur farið til verkefna á Austurlandi. Í lok maí var heildar talan á seldu sementi frá verksmiðjunni komin í 36.635 tonn. Heildarsalan árið 2003 var 85.000 tonn.

Metsala

Aalborg Portland Ísland hf. (APÍ) var formlega stofnað í byrjun ársins 2000. Fyrstu árin var markaðshlutdeild fyrirtækisins óveruleg, miðað við Sementsverksmiðjuna hf. á Akranesi. Í dag er landslagið allt annað, enda er Aalborg Portland komið með mjög stóra viðskiptaaðila til sín. Bjarni Halldórsson, framkvæmdarstjóri fyrirtækisins segir að sementssala fyrirtækisins hafi aldrei verið meiri en í ár og sé nú orðin um 28 þúsund tonn. Ef miðað sé við suðvestur horn landsins eingöngu þá séu þeir orðnir heldur stærri en Sementsverksmiðjan í sementssölu. Hann segir útlitið gott á næstu mánuðum og mikill framkvæmdahugur virðist í mönnum víða um land.