Iðnfyrirtæki á Norður- og Austurlandi eru nú mörg hver búin að koma sér upp olíukötlum til raforkuframleiðslu. Ástæðan er sú að afhendingaröryggi raforku er ótryggt á köflum og hætt við að starfsemi skerðist, tryggi þau ekki sjálf aðgang að rafmagni á álagstímum. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir í samtali við Viðskiptablaðið að brýnt sé að auka flutningsgetu á svæðinu. „Byggðalínukerfið er algjörlega sprungið,“ segir hann.

Stendur í vegi uppbyggingar

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðarsvæðisins, hefur talsverðar áhyggjur af þessari stöðu.

Hann segir að tækifæri til atvinnuuppbyggingar séu færri en ella vegna takmarkaðs aðgengis að rafmagni. „Eyjafjarðarsvæðið býr við skert skilyrði til atvinnuuppbyggingar. Orkufrekur iðnaður eða orkuháð starfsemi er ekki valkostur nema til komi veruleg styrking flutningskerfis,“ segir hann. „Markaðsstarf til að laða að erlenda fjárfestingu eða atvinnutækifæri er til lítils miðað við þessa stöðu,“ bætir hann við.

Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, segir að Becromal, Mjólkursamlagið, Víking, fiskimjölsverksmiðjur og fleiri félög hafi þurft að sæta skerðingum. „Nú er komin upp sú staða, sem hefur verið að ágerast undanfarin ár, að það er ekki hægt að selja meira rafmagn. Það er allt orðið uppselt.“