Undanfarin misseri hefur flutningsstraumur fólks frá útlöndum til Íslands verið meiri en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru landsmenn 304.334 talsins hinn 1. júlí síðastliðinn.

Um síðustu áramót voru íbúar 299.891 og hefur íbúum því fjölgað um 1,5% sem af er þessu ári. Ef fram fer sem horfir verður fólksfjölgun á árinu 2006 nálægt 3%. Á árinu 2005 fjölgaði landsmönnum um 2,2% og var það meiri fólksfjölgun en verið hafði um áratuga skeið. Árleg fólksfjölgun hafði þá aldrei verið hærri en 2% frá því um 1960.

Mikil fólksfjölgun hérlendis frá lokum seinni heimstyrjaldar fram á 7. áratuginn stafaði fyrst og fremst af miklum fjölda fæðinga og bættum lífslíkum. Þótt fæðingartíðni hér á landi séu hærri en víðast hvar annars staðar í Evrópu munar nú meiru um umfangsmikla flutninga fólks frá útlöndum, segir í tilkynningu frá Hagstofunni.