Flutningur Fiskistofu til Akureyrar mun leiða til á bilinu 150 til 200 milljón króna kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Ekki liggur fyrir hvort fjárhæðin telji mögulegan kostnaðarauka vegna óhagræðis sem hlýst af því að starfsemi opinberra aðila sé dreifð, til dæmis vegna dagpeninga starfsmanna eða samgöngukostnaðar. Þá hefur skrifstofuhúsnæði sem Fiskistofa hefur gert samning um leigu á til ársins 2026 ekki verið sagt upp. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fullyrðir að flutningurinn muni draga úr rekstrarkostnaði stofnunarinnar.

Flestir starfsmenn munu missa vinnuna

Viðskiptablaðið sagði frá flutningunum í gær, en þeir komu starfsmönnum stofnunarinnar í opna skjöldu . Um 70 manns starfa fyrir Fiskistofu og mun meirihlutu þeirra missa vinnuna. Sigurður Ingi sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að það kæmi sér ekki á óvart að starfsfólkinu væri brugðið.