Gísli Hall, verjandi Hannesar Smárason, fyrrverandi forstjóra FL Group, krefst þess að máli embættis sérstaks saksóknara gegn Hannesi verði vísað frá dómi. Fram kom í málflutningi um frávísunarkröfuna í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að lögmanni Hannesar finnist ákæran á hendur honum óskýr, lögregla hafi brotið gegn skjólstæðingi sínum og að rannsóknargögn hafi verið afhent með ólögmætum hætti.

Frávísunarkrafa í málinu var bókuð í janúar . Hana átti að flytja á mánudag en henni var frestað.

Málið snýst um viðskipti tengd sölu FL Group á norræna flugfélaginu Sterling þegar Hannes var forstjóri FL Group. Í tengslum við viðskiptin er Hannes ákærður fyrir fjárdrátt og umboðssvik til vara þegar 46,5 milljónir dala, jafnvirði tæpra þriggja milljarða íslenskra króna, voru millifærðar af reikningi FL Group undir lok apríl árið 2005 inn á annan reikning félagsins sem Hannes hafði látið stofna nokkrum dögum fyrr hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Peningarnir voru síðan færðir yfir á reikning Fons eignarhaldsfélagsins, sem var undir stjórn Pálma Haraldssonar. Í ákæru í málinu segir að sérstakur saksóknari telji millifærsluna ekki hafa verið í þágu FL Group og án vitundar lykilstjórnenda.

Þegar Hannes var ákærður í málinu seint á síðasta ári hafði hann nýverið tekið við starfi sem forstjóri fyrirtækisins Nextcode, systurfyrirtæki Íslenskrar erfðagreiningar. Í kjölfarið ákvað hann að stíga til hliðar . Björn Zoega, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, tók við starfi hans hjá Nextcode.