Rúnar Bjarnason, nýr forstöðumaður PwC á Norðurlandi, segist ekki eiga neinar rætur að rekja til Norðurlands en hann eigi þó marga góða vini sem séu að norðan. Það hafi verið hrein ævintýraþrá sem hafi rekið hann til þess að ráða sig í starf á Akureyri.

„Þetta er virkilega spennandi svæði og það er kannski að hluta til það sem dregur mann hingað norður. Það verður einnig spennandi að takast á við það verkefni að halda áfram að byggja upp þá þjónustu sem við bjóðum upp á hérna nú þegar og kynnast fólkinu hérna fyrir norðan,“ segir Rúnar. Það sé líka aldrei að vita nema að hann eigi eftir að bregða sér á skíði í Hlíðarfjalli, en hann segist ekki hafa stundað skíði neitt að ráði hingað til.