Innlendir sælgætisframleið­ endur fluttu í fyrra út um 426 tonn af sælgæti að verðmæti 436 milljónir króna. Útflutningurinn samanstóð að mestu af vörum frá Freyju og Kólus.

Frá árinu 2009 og fram til októberloka hefur Ísland flutt út yfir 2.600 tonn af sælgæti. Útflutningurinn hefur aukist þó nokkuð undanfarin sjö ár, eða um tæplega fimmtung á ári hverju. Á síðasta ári náði útflutningurinn sér aftur á strik eftir samdrátt frá árinu 2013.

Stærstu útflutningsmarkaðirnir fyrir íslenskt sælgæti eru Danmörk, Bandaríkin, Færeyjar, Svíþjóð og Noregur. Einnig má finna íslenskt sælgæti í Rússlandi, Þýskalandi, Grænlandi, Hollandi og Bretlandi. Miðað við höfðatölu er útflutningurinn til Færeyja langmestur, en þangað voru flutt út 58 tonn af sælgæti í fyrra.

Fluttu inn 2.900 tonn

Ísland er aftur á móti nettó innflytjandi af sælgæti. Flutt voru inn rúmlega 2.900 tonn af sælgæti hingað til lands á síð­asta ári fyrir rúmlega 2,2 milljarða króna. Hallinn við útlönd á vöruskiptum með sælgæti var því 2.500 tonn á síðasta ári eða tæplega 1,8 milljarðar króna.

Mestur er innflutningurinn á sælgæti frá Bretlandi, Danmörku, Hollandi og Þýskalandi. Sé litið aftur til ársins 2010 hefur útflutningurinn á íslensku sælgæti þó vaxið tæplega fjórum sinnum hraðar heldur en innflutningurinn.

Einn Draumur á hverjum degi

Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis hefur sælgætisframboð á Íslandi verið svipað undanfarin ár, um 18 kíló á íbúa eða að meðaltali 350400 grömm á íbúa á viku. Það er meira en gengur og gerist á Norðurlöndunum.

Til að setja þessa sælgætisneyslu í samhengi er það eins og að borða eitt Draum súkkulaðistykki frá Freyju á hverjum degi. Þar sem um er að ræða meðaltalsmagn er ljóst að stór hluti þjóðarinnar borðar mun meira sælgæti.

Nýjustu tölur eru frá 2014, þegar heildarframboð­ið á sælgæti nam um 6.000 tonnum. Þar af var hlutur innlendrar framleiðslu – að frádregnum útflutningi – um 60% en hlutur innflutnings tæplega 40%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .