Velta Mekka Wines&Spirits ehf. (MWS) nam tæplega 4,5 milljarði króna á síðasta ári og jókst um tæplega 440 milljónir króna frá fyrra ári. Faraldurinn hafði óveruleg áhrif á starfsemi félagsins en einhver röskun varð á birgðakeðjunni í sumum tilfellum. 14% veiking krónunnar hafði þó áhrif á heildarumfang rekstrar- og efnahagsreiknings.

Félagið, eins og nafn þess ber með sér, flytur inn áfenga drykki hingað til lands og stunda heildsöluverslun með þá. Meðal vara í katalóg þeirra má nefna vín frá Tomassi, Louis Latour, Vina Ardanza, Ballantines, Finlandia, Beefeater, Stella Artois, Pilsner Urquell, Bombay Gin, Parton Tequila og Beefeater. Talningin er fjarri því að vera tæmandi.

Kostnaðarverð seldra vara nam tæplega ,38 milljörðum króna og var EBITDA félagsins 216,4 milljónir króna sem er 27 milljónum hærra en í fyrr. Afkoman eftir skatta var nokkurn vegin á pari við fyrra ár, rúmlega 160 milljón króna hagnaður samanborið við 155 milljónir árið áður.

Eignir félagsins voru metnar á 824 milljónir króna í ársbyrjun en þar af voru birgðir um helmingur. Handbært fé nam 324 milljónum króna. Langtímaskuldir voru engar og skammtímaskuldir 352 milljónir. Fjöldi starfsmanna er átján og stóð í stað. Laun og launatengd gjöld námu 229 milljónum króna og hækkuðu lítillega.

Stjórn félagsins lagði til á aðalfundi að 140 milljón króna arður yrði greiddur til hluthafa en arðgreiðslur námu 120 milljónum króna árið áður. Óráðstafað eigið fé félagsins nemur rúmlega 466 milljónum króna en heildar eigiðfé er tæplega 6 milljónum hærra.

Stærsti hluthafi félagsins er Ares eignarhaldsfélag ehf. en það er að mestu í eigu Egils Ágústssonar og Jóns Egils Ragnarssonar. Sá fyrrnefndi á síðan tæplega fimmtungshlut í MWS í eigin nafni og Jón Egill 16%. Þorgils Óttar Mathiesen á fimm prósent gegnum félagið Pilt ehf. og Einar Bjarni Sigurðsson 6,5% gegnum IWT ehf. Tíu prósent hluta eru síðan í hendi MWS sjálfs.