Eftir að greiðslufyrirkomulagi til lækna á Landspítalanum var breytt árið 2002 fluttist stór hluti þjónustu sem þar var veitt til einkastofa. Læknar höfðu áður fengið greitt fyrir hvert unnið verk en eftir árið 2002 fengu þeir föst laun. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar þeirra Unu Jónsdóttur hagfræðings og Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur á hvötum á störf lækna.

Á einkastofum voru 185% meiri líkur á að einstaklingar færu í ákveðna gerð rannsóknar eftir að launafyrirkomulaginu var breytt en á Landspítalanum minnkuðu líkurnar á sömu aðgerð um 38,2%. Greiðslufyrirkomulag heilbrigðisþjónustu er í dag þannig að ríkisrekin heilbrigðisþjónusta er á föstum fjárlögum en einkarekin þjónusta fær greitt fyrir unnin verk. Samningar hafa ekki verið í gildi á milli hins opinbera og sérgreinalækna síðan í mars 2011. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hefur hlutdeild sjúklinga í aðgerðum á einkastofum aukist úr 31% í 42% síðan samningar féllu úr gildi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.