Árið 2012 nam útflutningur á íslenskum æðardúni tæpum 508 milljónum krón og er þetta í fyrsta skipti sem verðmæti útflutts æðardúns fer yfir hálfan milljarð króna, að því er segir í frétt Bændablaðsins .

Hækkunin milli ára nam 35,5%, eða 133 milljónum króna. Alls voru flutt út 3.081 kíló af dúni, en í fyrra nam magnið 3.050 kílóum. Magnaukningin var því ekki mikil, heldur skýrist verðmætaaukningin af því að kílóverð á æðardúni hefur hækkað hratt milli ára. Í frétt Bændablaðsins segir að eftirspurn hafi verið meiri en framboð og því fór svo að birgðir tæmdust snemma á árinu. Salan hefði því orðið meiri ef hægt hefði verið að anna eftirspurn.

Útlit er fyrir að mikill skortur verði á æðardúni fram að hausti þegar nýr dúnn kemur á markað. Þegar hafa nokkrir útflytjendur selt allan dún sem þeir fengu í haust og eru að afgreiða síðustu sendingarnar.