Forsvarsmenn breska lágfargjaldaflugfélagsins Flybe hafa ákveðið að leggja niður áætlunarferðir til Íslands og einbeita sér frekar að öðrum áfangastöðum. Þetta kemur fram á vefmiðlinum Túrista.

Í júní í fyrra hóf Flybe að fljúga til Íslands frá Birmingham. Var það jafnframt í fyrsta sinn sem boðið er upp á áætlunarflug héðan til þessarar næst fjölmennustu borgar Bretlands. Upphaflega stóð til að flugleiðin yrði einungis starfrækt yfir sumarmánuðina en skömmu áður en áætlunarferðirnar hófust tilkynntu forsvarsmenn Flybe að vegna mikillar eftirspurnar yrði flugið í boði allt árið um kring. Síðan hefur flugfélagið flogið til Keflavíkur nokkrum sinnum í viku, en fer sína síðustu ferð í lok mars.

Áfram verður þó hægt að fljúga beint til Birmingham vegna þess að Icelandair mun hefja áætlunarflug til borgarinnar í byrjun febrúar.

Þetta mun vera í annað skiptið á stuttum tíma sem erlent flugfélag hættir að fljúga til Íslands, en hið belgíska Thomas Cook Airlines mun ekki fljúga hingað frá Brussel í sumar líkt og tvö síðustu ár.