*

mánudagur, 25. janúar 2021
Erlent 19. október 2020 14:11

Flybe snýr aftur í háloftin

Flugfélagið, sem fór í þrot í mars, hefur starfsemi á ný eftir að einn fyrrum hluthafa keypti vörumerki og aðrar eignir þrotabúsins.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Breska flugfélagið Flybe, sem varð gjaldþrota fyrr á þessu ári, gæti hafið starfsemi á nýjan leik strax á næsta ári eftir að einn af fyrrum hluthöfum félagsins, Thyme Opco, festi kaup á vörumerkinu auk annarra eigna sem voru til staðar í þrotabúi Flybe. BBC greinir frá.

Áætlanir nýja eigandans gera ráð fyrir að félagið muni fyrst um sinn verða nokkuð smærra í sniðum en áður. Fyrir þrot flugfélagsins flutti það um átta milljónir farþega á ári og var með um 40% markaðshlutdeild á innanlandsflugum innan Bretlands. Vafi leikur þó á um hvort flugrekstrarleyfi Flybe sé enn gilt.

Um 2.200 manns starfaði hjá félaginu er það fór í þrot, en flugfélagið einblíndi mest á smærri flugvelli innan Bretlands. Til marks um það stóð flugfélagið fyrir um 80% fluga sem fóru um flugvellina í Southampton, Exeter og Belfast.

Stikkorð: flug Flybe