*

sunnudagur, 25. október 2020
Erlent 27. júlí 2020 09:15

Flýgur til Spánar þrátt fyrir sóttkví

Ryanair mun áfram fljúga til og frá Spáni þrátt fyrir tilskipanir breskra stjórnvalda um 14 daga sóttkví fyrir ferðamenn sem koma frá landinu.

Ritstjórn
epa

Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair mun halda áfram að fljúga til og frá Spáni þrátt fyrir innleiðingu breskra stjórnvalda á 14 daga sóttkví fyrir ferðamenn sem koma frá landinu. 

Neil Sorahan, fjármálastjóri Ryanair, sagði að ferðaáætlanir flugfélagsins munu haldast óbreyttar þrátt fyrir kvaðir stjórnvalda. Hann bætti þó við að Ryanair væri að endurskoða allan rekstur sinn hvað varðar uppbyggingu flugleiðakerfi síns í kjölfar útbreiðslu Covid. 

Aðspurður um ummæli Micheal O‘Leary, forstjóra Ryanair, sem kallaði sóttkvíartilskipanirnar „pólitískt uppátæki“, þá sagði Sorahan að það væri „möguleiki“ að fólk myndi ekki fylgja tilskipunum. 

„Það er gífurlega erfitt að halda uppi reglum um sóttkví. Fólk tekur sínar eigin ákvarðanir,“ er haft eftir Sorahan í frétt BBC. „Ég tel þetta ekki vera skilvirkustu leiðina, en þetta er aðferðin sem bresk stjórnvöld völdu.“

Stikkorð: Ryanair