Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir auglýsingar sveitarfélagsins til að vekja athygli á Þorlákshöfn, sem birst hafa undanfarið í sjónvarpi og netmiðlum, þegar hafa skilað sér í aukinni eftirspurn eftir húsnæði og lóðum í bænum.

„Við höfum fengið gríðarlega jákvæð og góð viðbrögð, og má þar nefna að á síðasta fundi skipulagsnefndar var átta lóðum úthlutað. Ætli það séu ekki rúmar 30 íbúðareiningar í því. Þetta er ein fjölbýlishúsalóð og svo par- og raðhúsalóðir og svo einhverjar einbýlishúsalóðir líka,“ segir Gunnsteinn, en hann segir skriðuna hafa í raun byrjað á síðasta ári.

„Það má eiginlega segja að fasteignamarkaðurinn hafi tekið við sér hérna síðasta sumar. Frá áramótum höfum við úthlutað 16 lóðum, sem hafa alls 63 íbúðareiningar, enda tvö fjölbýlishús þar inn í. Þá eru eftir 11 einbýlishúsalóðir og tvær raðhúsalóðir, hvor með þremur íbúðum, á svæði sem er tilbúið með götum og öllum innviðum og geri ég ráð fyrir að það verði allt komið í úthlutun í sumar. Svo erum við nú þegar farin að skipuleggja hér nýtt svæði, til að vera í stakk búin fyrir frekari þróun.“

Áhersla á ungt fjölskyldufólk

Gunnsteinn segir mikið um að ungt fólk og fjölskyldufólk sé að sækja til bæjarins, enda sést vel á auglýsingunum að áherslan er nokkuð á að fá þann hóp.

„Þegar farið er af stað með svona verkefni erum við vissulega með markhóp sem sótt er sérstaklega á, sem er í grunninn almennt ungt fólk og fjölskyldufólk,“ segir Gunnsteinn en hann segir marga koma sem hafi engin tengsl við bæinn, þótt þeir hafi séð ákveðin tækifæri í þeim sem höfðu búið hér áður, sérstaklega til að byrja með.

„Já, vissulega, það er töluvert af fólki sem hefur alist upp hér sem er að koma til baka, og hefur verið að gera á síðustu tveimur eða þremur árum, en það er líka fólk að flytjast hingað sem hefur engin tengsl við staðinn.“

Gunnsteinn segir verkefnið hafa haft langan aðdraganda, en hugmyndin hafi kviknað meðal hóps fólks sem hafi verið að ræða um skort á þekkingu á Þorlákshöfn meðal landsmanna.

„Ætli það séu ekki tvö og hálft til þrjú ár síðan við fórum að ræða þetta, en þá var fasteignamarkaðurinn hér lítið farinn að hreyfast eftir hrun og Íbúðalánasjóður átti hér fjöldann allan af íbúðum. Stór hluti þeirra stóð auður og var ekki í góðu viðhaldi,“ segir Gunnsteinn, en í febrúar árið 2015 voru 1.882 íbúar í sveitarfélaginu, en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt síðan og eru þeir nú 2028.

„Það var í lok árs 2013 og byrjun ársins 2014 sem við erum að byrjað að ræða þetta. Síðan fáum við Hvíta húsið inn í verkefnið með það í huga að auglýsa svæðið, því við sáum að við vorum með innviði hérna til að geta bætt við í kringum 500 íbúum í Þorlákshöfn án þess að þurfa að fara í miklar fjárfestingar.

Við lögðum aðaláherslu á að kynna okkar sterku innviði, að við erum með góða leik- og grunnskóla auk þess frelsis sem felst í því að búa hérna. Íþrótta- og tómstundastarf er skipulagt í samstarfi leik- og grunnskóla og íþróttafélaga og fer fram í samfellu á skólatíma, sem sparar tíma og spor fyrir foreldrana. Síðan fengum við Jónas Sigurðsson í lið með okkur, en það er hann sem talsetur auglýsingarnar og það er lagið hans, Hamingjan er hér, sem hljómar undir.“

Fjölgunin fór hratt af stað

Þangað til auglýsingarnar gátu farið í birtingu upp úr áramótunum síðastliðnum þurfti þó heilmikla undirbúningsvinnu.

„Það var gríðarlega mikil efnisvinna í tengslum við alla kynningarvinnuna hjá okkur, meðal annars að uppfæra heimasíðuna og gera hana klára og vera bara almennt í stakk búin að svara þeim spurningum sem upp koma,“ segir Gunnsteinn sem segir að á þessum tíma sem sé liðinn séu meira og minna allar íbúðir Íbúðalánasjóðs í bænum komnar í eigu íbúa.

„Það hefur verið að gerast svona mestan part síðasta árið, en það var í raun ekki fyrr en 2016 sem eitthvað fer að gerast hér í þeim málum, en það fer þá mjög hratt af stað. Nú hafa bæst við um 150 íbúar og þá eru um 350 til 400 eftir þangað til það fer að ýta á að við þurfum að stækka skólann sem dæmi. Ef þessi þróun heldur áfram næstu árin, miðað við um 5% fjölgun á ári, þá eru þetta bara fjögur til fimm ár þangað til við þurfum að fara í stækkun, það er bara staðreynd.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .