Sænska lággjaldaflugfélagið FlyMe mun fjölga áfangastöðum sínum fyrir sumarið 2007, segir í tilkynningu félagsins.

Frá flugvellinum Göteborg Landvetter verður flogið til Bologna og Aþenu. Frá Stockholm Arlanda verður bætt við áfangastöðum í Róm og Luleå, en þegar hefur verið tilkynnt að Nice og Alicante hafi verið bætt við þaðan. Frá Malmö Sturup verður bætt við áfangastöðunum Bologna, Nice og Alicante.

Mats Jacobsson, forstjóri viðskiptasviðs FlyMe segir að félagið hafi mikla trú á áfangastöðunum í Bologna og Aþenu. Hann segir að Bologna muni vekja áhuga þeirra sem hafi áhuga á menningu og einnig sólarlandafara, hann segir einnig að viðskiptaferðir séu tíðar þangað. Hann segir að mikil eftirspurn sé eftir flugi til Aþenu og býst við að Norðmenn muni jafnvel sækja í flug þangað.

Jacobsson segir að fjölgun áfangastaða sé samkvæmt stefnu flugfélagsins um að stækka við sig.

Fons eignarhaldsfélag seldi nýverið 20% hlut sinn í FlyMe vegna ágreinings um stefnu. Hlutafélagið Cognation, sem er að mestu í eigu Norðmannsins Christian Ager Hansen, keypti hlutinn.