Flyover Iceland, sem heldur úti sýndarflugi úti á Granda, tapaði 370 milljónum króna samanborið við 509 milljóna tap árið 2020 en fækkun ferðamanna hefur haft veruleg áhrif á reksturinn. Félagið hefur samtals tapað 1,1 milljarði króna frá stofnun árið 2019 en starfsemin hófst um mitt það ár. Framkvæmdastjóri Flyover Iceland segir þó að mikill viðsnúningur hafi orðið á rekstrinum við afléttingu sóttvarnarreglna í byrjun árs.

Velta félagsins dróst saman um 5,4% á milli ára og nam 452 milljónum króna. Rekstrargjöld námu 922 milljónum en þar af voru laun og launatengd gjöld 247 milljónir og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður 396 milljónir. Stöðugildi voru 45 í árslok 2021. Rekstrartap var því um 470 milljónir á síðasta ári.

Eigið fé Flyover Iceland var neikvætt um 35 milljónir í lok síðasta árs en var jákvætt um 336 milljónir ári áður. Eignir félagsins voru bókfærðar á tæplega 1,6 milljarða.

Í ársreikningi félagsins kemur fram að samkomulag hafi verið gert við leigusala varðandi endurgreiðslu leigugreiðslna vegna Covid-faraldursins að fjárhæð 162,5 milljónum króna með 60 mánaðarlegum afborgunum sem byrja í október 2022. Til viðbótar samdi félagið um leigugreiðslur að fjárhæð 69 milljónir þar sem endanlegur byggingarkostnaður lá ekki fyrir fyrr en í janúar 2022.

Mikill viðsnúningur strax eftir afléttingar

Stjórn Flyover Iceland segist hafa trú á að veruleg bæting verði á rekstrinum í ár. Félagið áætlar að tekjurnar muni aukast um 120% á milli ára og verði því nálægt einum milljarði króna í ár.

Helga María Albertsdóttir, framkvæmdastjóri Flyover Iceland, segir í samtali við Viðskiptablaðið að reksturinn sé á áætlun fyrir árið 2022. Fyrirtækið hafi fundið fyrir miklum viðsnúningi um leið sóttvarnatakmarkanir voru afléttar í lok febrúar. Hún er því bjartsýn fyrir sumrinu.

Líkt og önnur fyrirtæki í ferðamannageiranum hefur fækkun ferðamanna í faraldrinum haft veruleg áhrif á starfsemina. Helga María segir að viðskiptalíkan Flyover Iceland reiði sig á að nægilega margir ferðamenn sæki landið. Sýningin sé í stórri fasteign á Fiskislóð og mikið hefur verið lagt í sýninguna.

„Það sem skiptir okkur mestu máli er að ná ákveðnum fjölda ferðamanna inn. Við höfum í raun og veru ekki tækifæri til að skala reksturinn mikið niður,“ segir Helga.

Töpuðu fyrir hluthafa í Landsrétti

Flyover Iceland er í eigu Esju Attractions ehf. sem er á móti í meirihluta eigu alþjóðlega afþreyingarfyrirtækisins Viad Corp. Esja Attractions hefur afskrifað fjárfestingu sína í Flyover Iceland að fullu.

Viðskiptablaðið sagði frá því í byrjun síðasta árs að Landsréttur hefði dæmt This is City Attractions B.V., hluthafa Esju, í vil gegn félaginu vegna samnings um uppbyggingar á flugupplifuninni. Esja ber að greiða sem nemur 3,5% af tekjum vegna seldra miða í flugupplifuninni í 15 ár frá opnunardegi, samanber ákvæði í umræddum samningi.

Sjá einnig: FlyOver tapaði gegn hollenskum hluthafa

Esja var einnig dæmd til að This is City 300 þúsund evrur auk dráttarvaxta ásamt 2,5 milljónum króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.